Hugi Þórðarson

Hugi Thordarson

15.03.2011
Strætó í Mðvoþðsfþðsellvbæ

Ég vaknaði í morgun með stokkbólgna tungu, líklega einhver bráðsmitandi sjúkdómur á ferðinni eins og málæði eða sveitunga. Lét það ekki á mig fá og dreif mig í vinnuna.

Þegar ég kom út í strætóskýli stóð þar maður sem ég hafði ekki séð í strætó áður; "sætukoppur" eins og við köllum hann í bransanum. (Eða var það grænjaxl…)

Sætukoppurinn bauð góðan daginn og spurði "fyrirgefðu, gengur þessi vagn upp í Mosfellsbæ?". Ég svaraði honum á tungubólgnu þvoglumæli "Já, hann gengur Vesturlandsveginn og svo upp að Reykjalundi". Maðurinn kinkaði hægt kolli og muldraði "uuu, takk".

Þegar vagninn nálgaðist sagði maðurinn "jæja, þarna kemur hann". Ég svaraði "já, ánægjulegt þegar þeir ganga tímanlega á svona köldum morgnum". Maðurinn horfði á mig stórum augum og svaraði óstyrkur "haha, já rétt hjá þér, strætisvagnar ganga oft á réttum tíma".

Þegar við stigum inn í vagninn spurði maðurinn bílstjórann "fyrirgefðu, gengur þessi vagn upp í Mosfellsbæ?".

Ég fór og faldi mig aftast í vagninum. Því það er einhvernveginn aldrei réttur tími til að útskýra fyrir ókunnugu fólki "fyrirgefðu, ég kann alveg að tala, ég er bara með alveg rosalegt kýli á tungunni - hérna - sjáðu!".

08.10.2009
Ring ring ring, á heilanum...

Get ... ekki ... hætt ... að ... hlusta. Þetta er eins og krakk fyrir eyrun.

06.10.2009
Atvinnuleyfi

Ég var að lesa mér til um atvinnuleyfi í Bandaríkjunum þegar ég rakst á þessa bráðskemmtilegu málsgrein í texta um H1B-atvinnuleyfi fyrir fólk með sérfræðiþekkingu (feitletrun mín):

The regulations define a “specialty occupation” as requiring theoretical and practical application of a body of highly specialized knowledge in a field of human endeavor[1] including, but not limited to, architecture, engineering, mathematics, physical sciences, social sciences, biotechnology, medicine and health, education, law, accounting, business specialties, theology, and the arts, and requiring the attainment of a bachelor’s degree or its equivalent as a minimum[2] (with the exception of fashion models, who must be "of distinguished merit and ability".)

Það verður auðveldara en ég hélt að komast inn í Bandaríkin.

02.10.2009
Franska

Ég hrökk upp af draumi í nótt, algjörlega sannfærður um að ég kynni frönsku. Ég var samt ekki alveg viss, svo ég sagði nokkrar setningar við sjálfan mig í lágum hljóðum - og viti menn - það streymdi fram af vörum mér svona líka gullfalleg reiprennandi háfranska. Ég brosti í kampinn, muldraði eitthvað um að ég væri alltaf að koma mér á óvart, sagði kurteislega "bonsoir" og lokaði augunum aftur.

Framvegis verður geymt upptökutæki við hliðina á rúminu. Ég er mjög forvitinn um hvernig "franskan" mín hljómar.

30.09.2009
Rólegt kvöld á Hagamel

Það voru mikil rólegheit á Hagamel í gærkvöldi. Engir gestir og ekkert í sjónvarpinu, svo ég kveikti á tungl-lampanum, málaði mig bláan, setti Stravinsky á fóninn og las Strumpana afturábak meðan Ósk lék sér með glösin sín.

Gott að ná smá afslöppun.

26.09.2009
Skipulagsbreytingar

Ágætu Íslendingar, útlendingar, millilendingar og aðrir lesendur í uppsveitum, innsveitum og lúðrasveitum nær og fjær.

Tenglum á aðra vefi (hér að neðan til vinstri) er nú raðað eftir tímasetningu síðustu uppfærslu. Einnig er hægt að músa yfir nafn vefsins og sjá þá dagsetningu og titil nýjustu færslu á þeim vef.

Þetta er hluti af jarðvegsvinnunni fyrir yfirvofandi útlitsyfirhalningu hér, en að henni lokinni geri ég ráð fyrir að þessi vefur verði svolítið fallegri. Eða a.m.k. ekki lengur svo útlitslega skertur að maður deyi pínu í hvert skipti sem maður les hann. Ef þú ert sérstakur aðdándi grænna kassa, þá er tilvalið að kyssa þá bless núna - þeir eru að fara til kassahimnaríkis og koma aldrei aftur.

Ég þakka áheyrnina, og ég þakka heyrnina því án hennar mundi ég ekkert heyra, amen halelúja og góða helgi.

24.09.2009
Endurtekið efni

Einhver minna fjölmörgu aðdáenda er byrjaður að taka gamlar færslur eftir mig og birta í eigin nafni. Mjög virðingarvert framtak hjá stúlkunni og vel að verki staðið - hún leggur t.d. í heilmikla erfiða og leiðinlega vinnu við að yfirfara skrifin og lagfæra orðalagið svo það falli að kvenkyns höfundi. Og útkoman er alveg bráðskemmtileg. Ég sé strax að ég hefði orðið fyrirtaks kvenmaður.

En þetta er í þriðja skiptið sem einhver leitar hingað eftir innblæstri og endar með því að endurskrifa vefinn minn orðrétt. Og ég botna ekkert í þessu, þessir snillingar gætu endurskrifað texta eftir hvern sem er - t.d. Plató eða Sókrates eða Astrid Lindgren - en kjósa frekar að skrifa um mig og nærbuxurnar mínar.