Hugi Þórðarson

1. Jul 2016 23:55
1. Jul 2016 23:45
1. Jul 2016 15:12
1. Jul 2016 09:33
30. Jun 2016 13:51
30. Jun 2016 13:45
30. Jun 2016 13:45
30. Jun 2016 13:39
30. Jun 2016 10:54
30. Jun 2016 05:59


Strætó í Mðvoþðsfþðsellvbæ

15. mar. 2011 08:10

Ég vaknaði í morgun með stokkbólgna tungu, líklega einhver bráðsmitandi sjúkdómur á ferðinni eins og málæði eða sveitunga. Lét það ekki á mig fá og dreif mig í vinnuna.

Þegar ég kom út í strætóskýli stóð þar maður sem ég hafði ekki séð í strætó áður; "sætukoppur" eins og við köllum hann í bransanum. (Eða var það grænjaxl…)

Sætukoppurinn bauð góðan daginn og spurði "fyrirgefðu, gengur þessi vagn upp í Mosfellsbæ?". Ég svaraði honum á tungubólgnu þvoglumæli "Já, hann gengur Vesturlandsveginn og svo upp að Reykjalundi". Maðurinn kinkaði hægt kolli og muldraði "uuu, takk".

Þegar vagninn nálgaðist sagði maðurinn "jæja, þarna kemur hann". Ég svaraði "já, ánægjulegt þegar þeir ganga tímanlega á svona köldum morgnum". Maðurinn horfði á mig stórum augum og svaraði óstyrkur "haha, já rétt hjá þér, strætisvagnar ganga oft á réttum tíma".

Þegar við stigum inn í vagninn spurði maðurinn bílstjórann "fyrirgefðu, gengur þessi vagn upp í Mosfellsbæ?".

Ég fór og faldi mig aftast í vagninum. Því það er einhvernveginn aldrei réttur tími til að útskýra fyrir ókunnugu fólki "fyrirgefðu, ég kann alveg að tala, ég er bara með alveg rosalegt kýli á tungunni - hérna - sjáðu!".